Bændur í Grikklandi óku dráttarvélum sínum að höfuðborginni Aþenu í gær. Fagnaði mannfjöldi þeim sem hetjum og klappaði fyrir þeim, þegar þeir keyrðu í gegnum bæinn. Lögðu þeir dráttarvélunum fyrir utan þingið, þar sem fjöldi manns safnaðist saman. Stjórnvöld hafa þegar gengið að hluta af kröfum bændanna.
Á þriðjudag óku um 150 dráttarvélar til grísku höfuðborgarinnar, þegar bændur mótmæltu háu eldsneytisverði og ósanngjarnri samkeppni sem gerir bændum erfitt um vik með að selja afurðir sínar. Veifuðu bændur gríska fánanum og flautuðu á leiðinni að sögn Reuters.
Enginn matur án bænda
Bændurnir sem tóku þátt í dráttarvélalestinni komu víða að. Margir höfðu farið á bát og ferðast langt til að taka þátt í mótmælunum. Við þinghúsið mátti sjá borða með textanum „Enginn matur án bænda.“ Mikil stemning var meðal mannfjöldans sem mætti fyrir utan þingið til að sýna samstöðu með bændunum. Var grískum fánum veifað.
Yfirvöld í Grikklandi hafa þegar fengið til móts við nokkrar af kröfum bænda. Er almennt litið á það sem stóran hlutasigur. Meðal annars fengu bændur endurgreiðslu á dísilolíu í ár og ríkisstjórnin hefur gefið til kynna að endurgreiðslan geti orðið varanleg. Gríski bóndinn Spyros Hatzis sagði:
„Allir þurfa að sameinast, því allir munu hafa hag af baráttu okkar – ekki bara við.“