ÁVARP TIL ALLRA ÍSLENDINGA

Eftirfarandi ávarp birtist í Þjóðólfi þann 7. ágúst síðast liðinn og lýsir grundvelli og markmiði Þjóðólfs sem öflugum miðli fyrir íslenska þjóð. Við störfum á grundvelli kristni og kristinnar menningu sem vegsamar karl og konu og samband þeirra til stofnunar fjölskyldu. Hallur Hallsson stofnandi Þjóðólfs skrifaði ávarpið.

Ó, Guð vors lands! Ó, land vors Guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!

Forfeður okkar sóttu innblástur í íslenskan söguarf þegar þeir lögðu vörður að fullvalda, sjálfstæðu og hlutlausu Íslandi á 20. öld. Matthías Jochumson [1835-1920] sótti innblástur í 90. Davíðssálm þegar hann samdi þjóðsönginn fyrir þjóðhátíðina 1874. Íslenski þjóðfáninn var staðfestur með konungsúrskurði 1915 heiðblár á rauð/hvítum krossi. Skjaldarmerkið sótt í landvættasögu Snorra Sturlusonar í Heimskringlu. Fjallkonan á mynd eftir þýskan myndlistarmann birtist árið 1866 að tilstuðlan Eiríks Magnússonar [1833-1913] bókavarðar í Cambridge. Stjórnarráðið hefur gefið út bók þar sem rifjuð er upp saga Fjallkonunnar sem á systur víða um Vesturlönd með rætur til Pallas Aþenu Grikkja. Frakkar auðvitað gáfu Ameríku Frelsisstyttuna. Bjarni Thorarensen [1786-1841] orti kvæði til fjallkonunnar sem fyrst birtist í Kaupmannahöfn árið 1819 í dönskum Studenteviser

Eldgamla Ísafold,
ástkæra fósturmold.
Fjallkonan fríð.

View Post

FRJÁLS & FULLVALDA 

Þjóðólfur er frjáls og fullvalda fjölmiðill sem helgar sig heill lýðveldisins; íslenskri menningu, sögu og tungu. Þjóðólfur kom fyrst út árið 1848 sama ár og Jón Sigurðsson [1811-1879] forseti skrifaði Hugvekju til Íslendinga. Friðrik VII Danakonungur hafði afsalað sér einveldi. Danir hugðust gera Ísland að héraði í Danmörku á Þjóðfundinum 1851. Undir forystu Jóns forseta lögðu þingmenn fram mótfrumvarp. Jón forseti vísaði í Gamla sáttmála við Noregskonung 1262. Stiftamtmaður Danakonungs, Trampe greifi sleit fundi en Jón forseti mælti þá hin fleygu orð: “Ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar, ” og viðstaddir tóku undir: “Vér mótmælum allir.” Jón forseti ásamt Fjölnismönnum tendraði ljós vonar. Þá voru landsmenn 58 þúsund út við ysta haf í hlekkjum fátæktar og harðræðis en Íslands glæsta fortíð lifði með þjóðinni. Frumkristnir Papar um árhundruð á eyjunni sem þeir kenndu við Jesú, Ísland numið norrænum mönnum 874, Alþingi stofnað 930, kristinn siður árið þúsund og Íslendingasögur ásamt norrænni goðafræði urðu alheims gersemar. Listaskáldið Jónas Hallgrímsson [1807-1845] saknaði frelsis og manndáðar á sinni tíð: 

Ísland, farsælda frón
og hagsælda hrímhvíta móðir,
hvar er þín fornaldarfrægð,
frelsið og manndáðin best.

ÍSLANDS MESTI SONUR 

Snorri Sturluson [1179-1241] mesti sonur Íslands færði okkur Snorra-Eddu og Heimskringlu; norræna goðafræði og Íslendingasögur sem fram á okkar dag veita veröldinni innblástur. Snorri færði okkur Ása-Óðinn í Ásheimi í Ásíá austan Tanakvíslar þar sem Don nú lygn streymir. Þar er nú Rússland. Ása-Óðinn settist að í Sigtúnum í Svíþjóð inni miklu. Árið 1217 reið Snorri með áttatíu alskjölduðum riddurum til Alþingis í bandalagi við Austmenn líklega Musteririddarar hér í tengslum við ofsóknir Vatikansins á hendur Katörum í S-Frakklandi. Snorri var veginn í Reykholti 1241 að skipan Hákonar Noregskonungs gamla í bandalagi við Gregoríus IX páfa í Róm. Þjóðin missti sjálfstæði 1262. Snorri færði okkur dýrgripi djúprar visku um lokaorrustu Ragnaraka á fornum slóðum Ása-Óðins svo sem völvan spáir í Völuspá. Þegar Surtur fer sunnan og fyr jörðu galar sótrauður hani að sölum heljar, vekur Gullinkambi hölda að herjaföður í hinni miklu lokaorrustu. Völvan spáir:

Bræður munu berjast 
og að bönum verða … 
mun engi maður 
öðrum þyrma.

ILLRÆMT DANSKT ARÐRÁN

Eftir að Jón Arason [1484-1550] Hólabiskup var hálfshöggvinn í Skálholti 1550 rændu Danir gulli, silfri og dýrgripum úr klaustrum og klausturjörðum, fluttu til Kaupmannahafnar um fimmtán ára skeið 1555-1570. Konungur tók yfir sjávarjarðir með gnægð fiskjar, brennistein í fallstykki og grút til að lýsa upp Köben. Um öld síðar hnuplaði Jón Hreggviðsson [f. 1650] snærisspotta, var hýddur á Alþingi og sakaður um að drepa böðul konungs þegar hann fannst dauður. Nóbelskáldið Halldór Laxness [1902-1998] skrifaði Íslandsklukkuna einu eign þjóðarinnar. Alþýðumaðurinn Jón þekkti fornsögurnar. Við Eyrarsund opnuðust augu Jóns Hreggviðssonar fyrir arðráni herraþjóðar. Illræmd Einokunarverslun ríkti 1602-1787, Ísland var dönsk nýlenda. Skaftáreldar 1783-84 gengu nærri þjóðinni, illræmdar plágur. Þjóðfrelsisbarátta 19. aldar varð að frelsisbáli. Þjóðin fékk Stjórnarskrá 1874, Heimastjórn 1904, fullveldi 1918 og lýðveldi 1944. Forfeður okkar hétu ævarandi hlutleysi þegar þjóðin vann fullveldi og neituðu að lýsa stríði á hendur Þýskalandi í lok síðari heimsstyrjaldar. Vestræn siðmenning á djúpar rætur í íslenskri þjóðarsál. Þjóðin beislaði fallvötn og jarðvarma, vann þorskastríðin 1952-1976: 

Þau eru svo eftirsótt Íslandsmið,
að enskir þeir vilja oss berjast við.
Og fiska í landhelgi hlið við hlið,
en hræðast samt varðbáta smá. 

ÍSLAND Á HELJARSLÓÐ

Þegar kom svo inn í 21. öldina var íslensk þjóð í fremstu röð að velsæld. Þann 17. júní 2024 fagnaði íslenska lýðveldið 80 ára afmæli. Landsmenn eru 430 þúsund af fjölþættum uppruna í landi allsnægta. En það er vá fyrir dyrum. Þjóðin ræður ekki eigin málum heldur hlítir tilskipunum útlendra wefara sem spinna örlagavefi helsis og ánauðar. Ísland er þátttakandi í styrjöld í Austurvegi sendandi vopn á vígaslóð. Ráðamenn blindir á líf í ljósi hafa snúist gegn eigin þjóð. Þjóðólfur mælir fyrir friði líkt og forfeður 20. aldar nú þegar leiðtogar okkar eru á heljarslóð sem sótrauður hæsnfugl. Vísbendingar eru um að Ísland nýrrar aldar sé að fá stöðu nýlendu; fiskimið og orkulindir úr landi, hvers kyns úrgangur fluttur til urðunar í íslenska náttúru sem þekja skal vindmyllum. 

Þjóðólfur vill fullveldið heim, sameina alla Íslendinga undir merkjum lýðveldisins, frjáls og fullvalda þjóð sem virðir rétt þegna sinna til þess að tjá skoðanir og virða trú allra þegna í lýðfrjálsu landi. Þjóðólfur stendur vörð um helgi lífs, bæði kynin, frelsi einstaklinga, jöfnuð fyrir Guði skapara okkar, auðlindir í þágu þjóðar. Þjóðólfur stendur vörð um réttarríkið, lög og rétt allra landsmanna. Dagur er upp risinn að vinna erfiði …

Og vér vitum …

Og vér vitum að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs, þeim sem kallaðir eru af Guði.“  Páll postuliRómverjabréfið 8:28.

Deila
Skoðanakönnun
Við viljum hvetja alla sem áhuga hafa að hjálpa okkur að velja nafn á útvarpið okkar.
1

1. Hér eru nokkrar tillögur sem okkur hafa borist

Hreinsa
Þín tillaga að nafni fyrir stöðina
1

1. Hér hefur þú kost á að gera tillögu að nafni.

Hreinsa