Frjósemi í Svíþjóð á síðasta ári var sú lægsta síðan byrjað var að taka saman yfirlit yfir barnafæðingar árið 1749, samkvæmt nýjum tölum frá sænsku hagstofunni „Statistiska Central Byrån“ SCB.
Barneignum hefur fækkað verulega um allan hinn vestræna heim eftir kórónufaraldurinn og fjöldabólusetningar en sérfræðingar segjast ekki hafa nein svör á höndum sem getur útskýrt þessa fækkun.
Samkvæmt sænsku hagstofunni fæddust 100.100 börn í Svíþjóð árið 2023, þar af voru 51,2% drengir og 48,8% stúlkur. Fæðingum fækkaði um 4.700 miðað við árið 2022. Miðað við árið 2021 þá voru barnsfæðingar 14.200 færri. Ekki síðan 2003 hafa jafn fá börn fæðst í Svíþjóð.
Heildarfrjósemin minnkaði árið 2023 í 1.449 börn á hverjar 1.000 konur. Fæðingartíðni hefur dregist saman síðan 2010 og á síðasta ári var heildarfrjósemin sú lægsta síðan Svíþjóð byrjaði að halda tölur yfir barnafæðingar árið 1749. Á línuritinu má sjá minnkandi frjósemi, þ.e.a.s. fjöldi fæddra barna á hverjar þúsund konur. Sjá má að talan hefur verið allt að 2000 börn en var í fyrra 1.449 börn.
Fólksinnflutningar eru enn mjög miklir – fólksútflutningar aukast mjög
Árið 2023 fluttu 94.500 manns til Svíþjóðar – fækkun um 7.900 manns eða 8% miðað við 2022. Á sama tíma fjölgaði brottfluttum í 73.400, sem er 22.800 manns eða 45% fleiri en árið áður. Stóra-Bretland, Þýskaland, Danmörk, Noregur og Bandaríkin eru helstu áfangastaðir brottfluttra Svía.
Þrátt fyrir metlága fæðingartíðni fjölgaði íbúum með áframhaldandi fjöldainnflutningi um 30.200 manns árið 2023, sem var hins vegar minnsta fólksfjölgun í algildum tölum síðan 2001.
Í árslok 2023 voru 10.551.700 skráðir í Svíþjóð, samkvæmt tölum hagstofu Svíþjóðar.