Áróðursmynd Hamas lýsir gyðingum sem réttdræpum rottum. Það er sama afstaða og nasistar höfðu.
Upplýsingar benda til þess að fórnarlömb í Ísrael hafi orðið fyrir nauðgunum og limlestingum vegna árása Hamas. Nauðgun og aðrar kynferðislegar árásir voru framdar í árás Hamas á Ísrael 7. október í fyrra. Enn fremur er ljóst, að gíslar sem hafa verið í haldi Hamas-hreyfingarinnar á Gaza hafa verið beittir kynferðisofbeldi.
Þetta segir hópur sérfræðinga frá SÞ sem hefur safnað miklum upplýsingum um árásir og gíslatöku Hamas í heimsókn til Ísraels dagana 29. janúar til 14. febrúar.
Sannanir fyrir kynferðisofbeldi gagnvart gíslum
Upplýsingarnar koma fram í skýrslu sem birt var nýlega (sjá pdf að neðan). Í skýrslunni segir:
„Sendinefndin hefur fundið skýrar og sannfærandi upplýsingar um að sumir gíslar sem fluttir voru til Gaza hafi verið beittir kynferðisofbeldi af ýmsu tagi, og við höfum ríka ástæðu til að ætla að ofbeldi af þessu tagi sé enn við lýði.“
Hópurinn hefur einnig safnað upplýsingum sem benda til limlestinga á kynfærum, aðrar kynferðislegar pyndingar, nauðganir og hópnauðganir í árás Hamas 7. október.
Hamas neitar ásökunum
Hamas hefur ítrekað neitað ásökunum um að liðsmenn þeirra hafi framið kynferðisofbeldi, þegar hreyfingin réðst á ísraelskar borgir, kibbutzum og Supernova tónlistarhátíðina. Um 1.200 manns létust í árásinni. Að auki voru 240 teknir og fluttir inn á Gaza. Um helmingur hefur síðan verið látinn laus. Ekki er vitað hversu margir gíslar eru eftir.
Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna hefur einnig fengið upplýsingar um að palestínskar konur og karlar hljóti að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í fangageymslum í Ísrael og við eftirlitsstöðvar eftir 7. október. Hefur slíkum ásökunum verið komið á framfæri til dómsmálaráðuneytis Ísraels og ríkissaksóknara ísraelska hersins. Stofnanirnar segjast ekki hafa fengið neinar kvartanir vegna málsins.
Ísraelar hafa hingað til verið afar gagnrýnir á viðbrögð SÞ við árásum Hamas. Ísraelar telja að SÞ hafi verið allt of hægfara og tregar til að fordæma og rannsaka það ofbeldi sem hefur verið tilkynnt. Meðal annars hafa sjúkraflutningamenn, sem voru fyrstir á vettvang árásarsvæðanna í Ísrael, sagt frá líkum sem augljóslega höfðu verið limlest.