ESB-dómstóllinn sektar Ungverjaland um 200 milljónir evra (um 30 milljarða íslenskra króna). Sagt er að landið reki of einstrengingslega fólksinnflutningastefnu. Fyrir hvern dag sem Ungverjaland neitar að opna landamærin fyrir hömlulausu innstreymi innflytjenda, þá verður Ungverjaland að greiða eina milljón evra til viðbótar.
Þessi dómur hæstaréttar ESB–alríkisins var kveðinn upp í dag. Um er að ræða hefnd Brusselhirðarinnar og sakfellingu vegna óhlýðni Ungverjalands við yfirþjóðlega ákvarðanatöku í Brussel.
Ungverjaland sem blómstrar er óþægileg fyrirmynd fyrir valdafíklana í Brussel
Þó að mörg ESB-ríki, þar á meðal Svíþjóð, glími við kerfisógnvekjandi vandamál sem tengjast allt of miklum fjölda innflytjenda, þá eru slíkar „áskoranir“ nánast algjörlega óþekktar í Ungverjalandi.
Ríkisstjórn Fidesz, undir forystu Viktors Orban, hefur lýst því yfir í skörpum tón, að hún ætli ekki að eyðileggja ungverska samfélagið á sama hátt og gerst hefur í öðrum aðildarríkjum ESB. Slíkt telst til óhlýðni við Brussel og leiðtoga ESB-ríkja með mikla fjölda innflytjenda.
Sú staðreynd, að Ungverjaland blómstrar, er einmitt vegna þess að landið hefur valið strangari og að eigin mati ábyrgari fólksinnflutningsstefnu. Slíkur samanburður er óþægilegur fyrir leiðtoga ESB, þegar íbúar ESB-ríkja sem eru á hnjánum vegna hömlulauss fólksinnflutnings fá tækifæri til að sjá muninn freistast til að kjósa aðra flokka en þá sem drúpa höfði fyrir elítunni í Brussel.
Ásakanir og þrýstingur
Lengi vel hefur valdaelítan í Brussel ráðist á Ungverjaland með ásökunum um að vera ekki lýðræðislegt, þrátt fyrir að stjórnarflokkurinn hafi hreinan meirihluta þjóðarinnar á bak við sig sem er óvenjulegt í ESB-ríki. Þegar Ungverjaland gafst ekki upp fyrir hótunum, þá snýr Brussel sér núna að fjárhagslegum þrýstingi. Áður hafði ESB stjórnin lagt hald á greiðslur á lögmætu fé til Ungverjalands og gerðist sek um fjárkúgun gegn Ungverjalandi.
Mega ekki vísa ólöglegum innflytjendum úr landi
Samkvæmt hæstarétti ESB þá hefur „Ungverjaland ekki gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að fylgja dómi frá 2020.“ Einnig er skrifað „að litið sé svo á, að þessi vanræksla feli í sér fordæmalaus og afar alvarleg brot á löggjöf ESB.“
Til viðbótar við kröfurnar um galopin landamæri fyrir innflytjendur, þá kveður dómstóllinn upp, að Ungverjaland verði að hætta að senda ólöglega innflytjendur úr landi, eða eins og það er orðað í dómnum: „að fjarlægja ríkisborgara frá þriðja landi sem dveljast ólöglega í landinu.“
Mega ekki hafa sjálfstæða stefnu í innflytjendamálum
Í úrskurðinum segir, að einstök ESB-ríki hafi ekki rétt til að ákveða sjálf, hverjum og hversu mörgum þau hleypa inn í landið. Þess í stað þarf að fylgja þeirri fólksflutningsstefnu sem framkvæmdastjórn ESB hefur búið til í Brussel.
Dómstóllinn skrifar að „Ungverjaland virði að vettugi meginreglu um einlæga samvinnu“ þegar stjórnvöld fylgja áfram þeirri innflytjendastefnu sem fólkið hefur kosið um og „sniðganga þar með vísvitandi að fylgja sameiginlegri stefnu ESB“.
Ólöglegir innflytjendur mikilvægari en íbúar ESB-ríkja
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, gagnrýndi ákvörðun dómstólsins strax eftir að hún var gerð opinber. Hann skrifar í færslu á X:
„Ákvörðun dómstólsins um að sekta Ungverjaland um 200 milljónir evra auk einnar milljón evra daglega […] er svívirðileg og óviðunandi. Svo virðist sem ólöglegir innflytjendur séu mikilvægari fyrir embættismenn í Brussel en þeirra eigin evrópsku borgarar.“