Miðsumar – stærsta fjölskylduhátíð Svíþjóðar

Miðsumarhátíðin eða Jónsmessufagnaðurinn er ævaforn hefð sem er í dag stærsta fjölskylduhátíð Svíþjóðar. Hefðin er svo sterk hjá Svíum að jafnvel jólahald og páskar lúta í lægra haldi fyrir Miðsumarhátíðinni. Í gegnum tíðina hefur sú trú ríkt, að þessi árstími beri með sér mjög sérstakan töframátt sem ekki er til á öðrum árstíma.

Miðsumarið þýðir að sumarið sé svo sannarlega komið. Það þýðir nákvæmlega eins og það hljómar „á miðju sumri.“ Orðið var til í fornsænsku „miþsumar.“ Hátíðin er haldin í tengslum við sumarsólstöður, sem er sá tími ársins þegar sólin er hæst á norðurhveli jarðar. Jónsmessukvöld ber alltaf upp á föstudag.

Miðsumri er einnig fagnað í Finnlandi, þar sem það er kallað „Juhannus“ sem vísar til Jóhannesar skírara. Í Danmörku og Noregi er einnig haldið upp á Jóhannes skírara með því að kveikja bál og fara í leiki. Dagur Jóhannesar skírara er að einhverju leyti einnig haldinn hátíðlegur í Þýskalandi en ekki sérstaklega í öðrum löndum Evrópu.

Siður frá fornöld

Hversu lengi Miðsumarhátíðin hefur verið haldin er óljóst en hún nær greinilega aftur til forneskju. Vitað er að Miðsumri hefur verið fagnað á Norðurlöndum frá miðöldum. Talið er að hátíðin hafi tengst frjósemi ásamt óskum um góða uppskeru.

Dansað kringum sumarstöngina. (Mynd © Håkan Dahlström/CC 2.0).

Sumarþrif og litlu froskarnir

Frá því á 19. öld tengjast hátíðahöldin sumarþrifum. Heimilið var allt þrifið og síðan klætt bæði að innan og utan með blómum og laufum meðal annars úr birki. Veisluskreytingarnar voru einnig gerðar af laufum svo og vagnarnir sem fólk ferðaðist í. Bændur seldu borgarbúum laufakörfur til skreytinga.

Miðsumarstöngin á uppruna sinn í 1. maí hátíðinni þegar maístöngin var reist í Þýskalandi og víðar um heim. Hefðin kom líklega frá Þýskalandi til Svíþjóðar á miðöldum en tíminn var færður til miðsumars og Jónsmessu. Jonas Engman skrifar, að dansað hafi verið í kringum miðsumarstöngina að minnsta kosti síðan á 19. öld:

„Dans með söng tók við á öðrum áratugnum. Á þeim tíma komu út söngbækur með laglínum og textum sem tengdust hátíðum.“

Vinsælasta sænska miðsumarlagið – „Litlu froskarnir“ – má rekja til herlags frá frönsku byltingunni sem kallast „La Chanson de l’Oignon“ eða „Söngur laukanna.“ Þessu lagi var breytt af enskum hermönnum sem breyttu orðinu „camarade“ (félagi) í „grenouille“ (frosk). Lagið var lengi til í Nääs-kastala í Vestur-Gautalandi í tengslum við námskeið í föndri og leikjum. Söngurinn um „Litlu froskana“ var prentaður í söngvabók Nääs árið 1922.

Miðsumarhlaðborðið

Hvað er á matarborðinu á Miðsumarshátíðinni fer svolítið eftir landshlutum. Mismunandi fisktegundir en einnig svínakjöt og annað kjöt hefur allt verið hluti af veisluhöldunum. Hvítgrautur, það er hafragrautur eldaður í mjólk og oft einnig með hveiti, er nokkuð sérstakur réttur sem hefur tíðkast sem hátíðarmáltíð á sumum stöðum ásamt súrmjólk.

Í dag er það umfram allt síld og nýjar kartöflur sem eru á boðstólum ásamt klassískum nýtíndum jarðarberjum. Brennivín af ýmsum toga er drukkið og drykkjuvísur kveðnar.

Nýjar kartöflur og síld eru á matarborðinu og snaps drukkinn og vísur sungnar. (Mynd @ Magnus D/CC2.0).

Töfrar Miðsumars

Lengi hefur verið talað um töframátt Miðsumars. Allt sem óx á Jónsmessu var talið búa yfir töfrakrafti. Til dæmis var algengt að binda blómsveig á miðju sumri og geyma hann og endurheimta orkuna yfir vetrartímann með því að setja þurrkaðan miðsumarkransinn í hið árlega jólabað.

Jónsmessardöggin var talin búa yfir sérstökum kröftum og ekki óvanalegt að velta sér í henni án fata eða safna dögginni og nota við þvott sængurvera til að fá betri heilsu. Einnig var algengt að drekka vatn úr lindum til betri heilsu sálar og líkama.

Að vaka við ákveðna staði gat einnig leitt til framtíðarsýna. Það kom fyrir að menn gengu svokallaðan „árgang“ á fastandi maga, rangsælis um kirkju eða annan helgan stað. Tora Wall, þjóðsagnfræðingur á Norræna safninu segir:

„Ef sá sem gekk „árganginn“ framkvæmdi siðinn að fullu, þá fékk hann sýn og heyrði hljóð sem sögðu frá atburðum komandi árs.“

Ástarnótt og draumagrautur

Miðsumarið/Jónsmessan hefur lengi tengst ástinni. Margar ungar konur í Svíþjóð týna enn sjö eða níu blóm og setja undir koddann til að komast að því hverjum þær muni giftast. Eldra sænskt rím kveður:

„Jónsmessunóttin er ekki löng en kemur sjötíu og sjö vöggum á hreyfingu.“

Önnur aðferð til að spá fyrir um framtíðarfélaga sinn var að borða svo kallaðan draumagraut sem var gerður úr hveiti, vatni og miklu salti. Síðan kom framtíðarfélaginn í draumi til að gefa viðkomandi að drekka til að svala þorstanum. Tegund drykkjarins gaf einnig vísbendingu um hvort lífið saman yrði ríkara eða fátækara.

Oft voru unglingar með svokölluð þykjustu brúðkaup þar sem valin voru miðsumarbrúðhjón með sinn hvorn blómakransinn. Stúlkur bundu oft kransa til dengja til að sýna að þau væru par.

Hinn raunverulegi þjóðhátíðardagur fram til 2005

Þjóðhátíðardagur Svía 6. júní sem áður var dagur sænska fánans, varð ekki almennur frídagur fyrr en árið 2005, þegar annar dagur Hvítasunnu var felldur niður sem almennur frídagur í skiptum fyrir þjóðhátíðardaginn. Fram að þeim tíma var aðalhátíðardagur Svía dagurinn fyrir miðsumarsdaginn, þegar miðsumarstöngin er reist.

Í gær reistu Svíar miðsumarsstöngina um alla Svíþjóð, umgengust með fjölskyldu, vinum og ættingjum og fögnuðu sólargeislum hins góða sumars. Júlí mánuður er helsti mánuður þar sem vinnandi taka sér sumarfrí og oft talað um „langa lata daga í sólbaði og á ströndinni.“

Deila
Skoðanakönnun
Við viljum hvetja alla sem áhuga hafa að hjálpa okkur að velja nafn á útvarpið okkar.
1

1. Hér eru nokkrar tillögur sem okkur hafa borist

Hreinsa
Þín tillaga að nafni fyrir stöðina
1

1. Hér hefur þú kost á að gera tillögu að nafni.

Hreinsa