Annar hver Svíi á aldrinum 32 – 41 árs fær fjárhagsaðstoð frá foreldrunum

Eldra fólk með minni húslán komast betur út úr öllum vaxtahækkunum (mynd © Tommie Hansen CC 3.0).

Undanfarið hálft ár hefur um það bil annar hver fullorðinn Svíi á aldrinum 32–41 árs fengið fjárhagsaðstoð frá foreldrum sínum. Það sýnir könnun frá Kantar/SBAB.

Í könnuninni voru 1.000 manns á aldrinum 18 -79 ára spurðir, hvort þeir hefðu styrkt einhvern fjárhagslega á síðustu 6 mánuðum. Þriðjungur svarenda sagðist hafa gert það. Af þeim sem styrktu einhvern fjárhagslega var algengast að styrkja börn sín sem fluttu að heiman – 17% sögðu það. 8% sögðust hafa stutt vin, 5% studdu foreldrana og 6% einhvern annan ættingja en börn og foreldra. Linda Hasselvik, hagfræðingur hjá húsnæðismálastofnun sagði í tilkynningu:

„Vaxtakostnaður hefur fjórfaldast á síðustu 18 mánuðum. Jafnframt hefur verðbólga verið á sama stigi og í kreppu 9. áratugs og orkuverð hefur um tíma verið umtalsvert hærra en heimilin eiga að venjast. Mörg heimili eiga í erfiðleikum og það er gaman að sjá, hversu margir hjálpa öðrum sem eiga í enn meiri erfiðleikum.“

Ekki neitt sem talað er hátt um

Sá aldurshópur sem hjálpaði börnum sínum mest á síðastliðnu hálfu ári, er á aldrinum 60–69 ára. Tæplega helmingur þess aldurshóps með börn eða 48% studdi börnin sín fjárhagslega. Með öðrum orðum þýðir það, að næstum annar hver fullorðinn einstaklingur á aldrinum 32–41 árs hefur notið fjárhagsaðstoðar frá foreldrunum. Er þá miðað við 28 ára meðalaldur fólks til að eignast börn. Linda Hasselvik segir:

„Það kemur á vissan hátt á óvart, að fullorðin – næstum miðaldra börn hafi fengið fjárstuðning í meira mæli en þau börn sem voru nýflutt að heiman. Jafnframt vitum við, að það er hópur sem hefur átt undir högg að sækja fjárhagslega. Mörg þeirra eiga lítil börn og hafa kannski keypt sér einbýlishús á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna, að þeir sem keyptu einbýlishús árið 2021 hafa að meðaltali séð vaxtakostnað sinn hækka um tæpar 9.000 sænskar krónur á mánuði. Það er vissulega vel þegið að fá peninga frá foreldrum sínum en um leið getur það verið svolítið skömmustulegt, það er líklega ekki neitt sem maður montar sig af í kaffipásunni.“

Börnin manns eru alltaf börnin manns

Hún heldur áfram:

„Foreldrar sem eru á aldrinum 60 – 69 ára hafa almennt ekki orðið fyrir eins harðri vaxtahækkun, þar sem þeir eru með umtalsvert minni lán. Þannig kemur það ekki á óvart, að þeir hjálpi börnum sínum sem glíma við erfiðari fjárhagsstöðu. Enda eru börn manns alltaf börn manns, sama hversu gömul þau eru.“

Deila
Skoðanakönnun
Við viljum hvetja alla sem áhuga hafa að hjálpa okkur að velja nafn á útvarpið okkar.
1

1. Hér eru nokkrar tillögur sem okkur hafa borist

Hreinsa
Þín tillaga að nafni fyrir stöðina
1

1. Hér hefur þú kost á að gera tillögu að nafni.

Hreinsa