Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands og Donald Trump hittust í vikunni, þegar Orbán var í heimsókn til Bandaríkjanna meðal annars til að afhenda samþykkt Ungverjalands á Nató-umsókn Svíþjóðar. Í heimsókn sinni til Bandaríkjanna var Orbán einnig á ráðstefnu með hugveitunni „Heritage foundation“ þar sem baráttan gegn glóbalismanum var til umræðu.
Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands og Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, helstu forvígismenn í baráttunni gegn glóbalistunum, voru á fundi í Mar-a-Lago bústað Trumps í Flórída. Fram kemur í yfirlýsingu á vefsíðu kosningabaráttu Trumps fyrir forsetakosningarnar í haust, að meðal annars hafi þeir rætt, hversu mikilvægt sé að hafa sterk og örugg landamæri til að vernda sjálfstæði landa.
Hungary Today hefur eftir Orbán, að sterkur leiðtogi í Bandaríkjunum sé trygging fyrir friði og stöðugleika í heiminum. Að sögn Orbáns er Trump slíkur leiðtogi. Hýsir Orbán miklar vonir um, að Trump takist að skapa frið í heiminum, verði hann kjörinn forseti í haustkosningunum.
Hin mikla alþjóðlega barátta
Daginn fyrir fundinn með Trump tók Orbán þátt í umræðum á vegum hugveitunnar Heritage Foundation. Þar sagði Orbán:
„Helstu skilin eru á milli stjórnmálaafla sem vilja varðveita sjálfstæði þjóðarinnar og þeirra sem vilja yfirgefa þjóðareinkenni fyrir eitthvað annað, eins og ofurríki ESB, byggt á frjálshyggjusamkennd án þjóðlegra auðkenna.“
Orbán skrifar á X (sjá neðar á síðunni), að þunginn í baráttunni í alþjóðastjórnmálum sé á milli „glóbalista annars vegar og hins vegar þeirra sem trúa á sjálfstæði þjóðarinnar.“