Í viðtali við LifeSiteNews gefur Gerhard Ludwig Müller, einn af kardínálum páfans og leiðandi kaþólskur aðili í Þýskalandi, sína skoðun á fjöldainnflytjendaverkefni hinnar glóbalísku vinstri-frjálslyndu stjórnmálaelítu. Hann segir engan vafa leika á því, að verið sé á meðvitaðan hátt að eyðileggja þjóðerniseinkenni landanna.
Í einkaviðtalinu við LifeSiteNews talar Müller kardínáli um þá hugmyndafræði sem hann telur vera að baki alþjóðahyggjunnar og þær „skelfilegu afleiðingar“ sem þessi stefna leiðir til. Muller fullyrðir, að „fjöldainnflutningur snúist ekki um að hjálpa fólki, heldur að eyðileggja þjóðerniskenndina.“
Eru á móti þjóð sem hugmynd og vilja heim án landamæra
Hann vill fella rök alþjóðasinna um, að þjóðerniskennd sé það sama og þjóðernishyggja, til dæmis nasismi, sem hefur valdið öllum styrjöldum. Í raun og veru eru menn á móti þjóðarhugtakinu og hugmyndinni um þjóðareiningu og vilja heim án landamæra:
„Þeir vilja að allir séu algjörlega einangraðir og ekki tengdir neinu tungumáli, menningu, fjölskylduböndum eða heimalandi þar sem manni líður vel. Þeir vilja eyða þessu öllu. Þeir vilja að allir verði brotnir niður og verði án menningarlegra og trúarlegra róta og sjálfsmyndar.“
Kapítalismi og kommúnismi í óheilagri sameiningu
Samkvæmt Müller er alþjóðahyggjan vanheilög blanda kapítalisma og kommúnisma. Hann segir vestræna alþjóðasinna vera kapítalista með „sósíalísku hugarfari.“
„Í þessu kerfi er alræði blandað saman við efnishyggju. Sá sem á mesta peninga er við völd og stjórnar og borgar fjölmiðlum.“
Sem dæmi bendir Müller á þá vel skjalfestu staðreynd, að eitt stærsta dagblað í heimalandi hans Þýskalandi, hið vinstra-frjálslynda Der Spiegel, er að hluta til fjármagnað af Bill & Melinda Gates Foundation.
Loftslagsviðvörun sem „afleysingartrú“
Í viðtalinu gagnrýnir Müller einnig loftslags-heimsenda-hreyfinguna. Auk þeirrar stefnu sem hún í raun stendur fyrir, sér hann einnig hvernig hamfarahlýnunarsinnar og „græna“ hreyfingin taka á sig mynd „afleysingatrúarbragða“ sem margir ganga til liðs við „í stað þess að breiða út hina upprunalegu kristni.“
Margir aðrir, ekki bara þeir sem hafa kristna lífsskoðun, hafa bent á hversu margt sé líkt með hamfarahlýnunarsinnum og trúarlegri dómsdagsdýrkun. Að sögn Müller eru hamfarahlýnunarsinnar miklir hræsnarar. Hann bendir meðal annars á, hvernig þeir sem hafa hæst í loftslagsmálunum sjáist nú fljúga enn á ný á loftslagsráðstefnuna í einkaþotum sínum.
Kynvæðing barna er meðvitað stjórntæki
Ennfremur er Müller gagnrýninn á kynvæðingu vinstri-frjálshyggjunnar á börnum. Í Svíþjóð hafa RFSL og hbtqi+ hreyfingin hlotið harða gagnrýni fyrir hvernig transvestítar vilja heilla jafnvel yngstu börnin með undarlegum lífsstíl sínum og kynhneigð sem klætt er í búning ævintýrastunda.
Samkvæmt Müller hefur kynvæðing barna einnig annað markmið. Með því að beina athygli borgaranna mjög snemma að kynlífi er auðveldara að stjórna þeim og gera þá háða og viðkvæma:
„Kynvæðing almennt og sérstaklega kynvæðing ungra barna er notuð til að þagga niður í fólki. Þeir nota kynhneigð sem eiturlyf.“
Stefnt að því að mylja kaþólsku kirkjuna
Müller dregur saman helstu þætti alþjóðahyggjunnar sem efnishyggju, alræði, mannfyrirlitningu og eyðileggingu sjálfsmyndar fólks.
Í Svíþjóð hafa vinstri-frjálshyggjumenn náð völdum á mótmælendakirkjunni. Kaþólska kirkjan hins vegar veitir enn íhaldssama mótspyrnu sem er glóblistunum til mikils ama. Að sögn Müller er forgangsverkefni glóbalistanna því að mylja kaþólsku kirkjuna niður. Hann lýkur viðtalinu við LifeSiteNews með orðunum:
„Það er ekki bara valtað yfir kirkjuna, henni er snúið á hvolf. Kirkja Krists er sakramenti hjálpræðis fyrir heiminn og framvarðarsveitin gegn sjálfseyðingu mannkyns af neikvæðu fólki og dómsdagsspámönnum.“