Það verður enginn nýr Tidö samningur eftir næstu kosningar, ef Jimmie Åkesson fær sjálfur að ráða. Leiðtogi Svíþjóðardemókrata stefnir á að verða forsætisráðherra – annars fer flokkurinn í stjórnarandstöðu. Þetta eru skilaboð Jimmie Åkesson, þegar þrjú ár eru eftir þar til Svíþjóð kýs á ný.
Jimmie Åkesson hefur gefið í skyn frá því að ríkisstjórnarflokkarnir gerðu með sér svokallaðan Tidö-samning, að hann líti á hann sem eilífa lausn. Óvíst sé, hvort samningurinn lifi af næstu þingkosningar. Åkesson hefur einnig gefið til kynna, að hann líti á sig sem næsta forsætisráðherraefni.
Skammtímalausn í gangi
Jimmie Åkesson, foringi Svíþjóðardemókrata talar opinskátt um málið við ríkisútvarpið. Hann segir hreint út, að enginn nýr Tidö samningur verði gerður: Annað hvort verður hann forsætisráðherra 2026 eða flokkurinn fer í stjórnarandstöðu.
„Við höfum sagt, að eftir næstu kosningar erum við annað hvort stjórnarflokkur eða stjórnarandstöðuflokkur. Þessi lausn sem við höfum í dag, að við erum stuðningsflokkur, er skammtímalausn.“
Stærri en ríkisstjórnarflokkarnir þrír samanlagt
Í mörgum könnunum að undanförnu hafa Svíþjóðardemókratar bætt við sig fylgi. Hafa þeir í einstaka könnun mælst stærri en allir ríkisstjórnarflokkarnir samanlagt.
„Núna erum við stærsti flokkurinn stjórnarmegin. Það er ljóst, að ef sú staða heldur áfram velli, þá væri ekki óeðlilegt að rétta ekki upp hönd og segja: Núna verð ég forsætisráðherra.“
Frjálslyndir segja nei
Frá Frjálslyndum og leiðtoga þeirra Johan Pehrson, sem fengu 2,3% í síðustu könnun og eru samkvæmt því dottnir út af þingi, heyrast bitrar raddir eftir að Åkesson talar um stöðu sína. Pehrson segir í viðtali við Göteborgs-Posten:
„Frjálslyndir hafa aðeins einn boðskap og ég hef engan stuðning til að segja neitt annað: Við sjáum ekki fyrir okkur að vera hluti af ríkisstjórn með Svíþjóðardemókrötum. Ég sé það ekki fyrir mér. Já, hann má líta á sjálfan sig eins og hann vill. Ég sá hann um daginn í gervi gervigreindar, þar sem hann talaði arabísku.“
Pehrson vísar hér til myndskeiðs sem Svíþjóðardemókratar létu gervigreind gera sem sýnir Jimmie Åkesson halda ræðu á reiprennandi arabísku, sjá hér að neðan: