Haraldur, 29 ára, hefur tekjur án þess að lyfta litla fingri

Þannig hefst auglýsing Sparisjóðs 1 í Noregi og með fylgir ljósmynd af Haraldi. Auglýsingin hefur vakið mikla athygli og umtal í Noregi. Haraldur er nefnilega ekki til. Haraldur var búinn til af gervigreind og það er hvergi minnst á það í auglýsingu sparisjóðsins. Karianne Tung, ráðherra stafrænna upplýsingamála í Noregi, íhugar núna að koma með nýja löggjöf um merkingu slíks efnis.

Siv Stenseth, samskiptastjóri hjá bankanum, viðurkennir að ekki hafi verið hugsað út í auglýsinguna áður en hún var birt almenningi. Hún segir í viðtali við norska ríkissjónvarpið NRK:

„Þetta er mál sem við verðum að læra af. Við höfum gert nokkur mistök hér.“

Verður að upplýsa um tilbúning

Heri Ramampiaro, deildarstjóri og prófessor við tölvuverkfræði- og upplýsingafræðideild norska vísinda- og tækniháskólans NTNU, bendir á, að þessi tegund á notkun gervigreindar sé erfið „ef hún er vísvitandi notuð til að blekkja fólk.“ Ramampiaro segir:

„Það verður að merkja hluti sem eru búnir til með gervigreind og þar ættu yfirvöld að blanda sér í málið. Því fyrr því betra. Það er engin ástæða til þess, að við verðum ekki góð í því í Noregi.“

Karianne Tung, ráðherra stafrænna upplýsingamála, segir að ríkisstjórnin vinni að tillögu regluverks um þróun og notkun gervigreindar í Noregi. Hún gagnrýnir að efni sem búið er til af gervigreind er látið líta út fyrir að vera ekta:

„Á sama hátt og með teiknaðar eða lagfærðar ljósmyndir þá tel ég að það séu málefnaleg rök fyrir því, að eigi að merkja slíkt. Ég mun því taka til skoðunar tillögu um lagaskyldu.“

Notum alvöru viðskiptavin í næsta skipti

Siv Stenseth samskiptastjóri bankans lofar hátíðlega, að í framtíðinni muni bankinn einungis nota raunverulega viðskiptavini við gerð auglýsinga af þessu tagi. Hún segir:

„Við munum vinna eins og við gerum venjulega. Það er að segja að nota myndir með raunverulegu fólki í auglýsingum okkar. Þegar við búum til viðskiptavinasögu munum við nota alvöru viðskiptavin.“

Deila
Skoðanakönnun
Við viljum hvetja alla sem áhuga hafa að hjálpa okkur að velja nafn á útvarpið okkar.
1

1. Hér eru nokkrar tillögur sem okkur hafa borist

Hreinsa
Þín tillaga að nafni fyrir stöðina
1

1. Hér hefur þú kost á að gera tillögu að nafni.

Hreinsa