Hallur Hallsson skrifar:
Hvað er með alla þessa hægri-öfgamenn sem heimta frið og eru á móti styrjöldum? „Öfgamaðurinn” Viktor Orban í Ungverjalandi hitti Zelinsky í Kænugarði á dögunum. Orban fór svo í friðarleiðangur til Moskvu að hitta Pútin, þaðan til Peking og svo Erdogan í Istanbúl. Í Washington hitti Orban gula kallinn Donald Trump til þess að ræða frið. Orban kallaði Trump „…mann friðar” en guli kallinn hóf enga styrjöld 2017-2021. Skelfilegur hægri-öfgamaður! „Trump leysir deiluna,“ segir Orban.
AF HÆGRIÖFGUM & FRIÐARSINNUM
Ungverjar gegna formennsku í ESB og Nato skelfur. Brussel stimplar friðarferð Orban „ólöglega.” Stoltenberg reitir hár sitt. Brussel hótar að taka formennskuna af þessum öfgafulla Orban. Robert Fico í Slóvakíu hefði farið með Orban til Moskvu hefði hann haft heilsu eftir banatilræðið. Búlgaría vill líka frið. Úkranski Dmytro Kuleba kollegi og náinn vinur Dísu okkar, vill að Úkraína fái formennskuna svo friður brjótist ekki út. Sjálfsagt fylgir Dísa Kuleba um Evrópu til þess að tryggja stríð og svo faðmast þau í Brussel líkt og Odessa. Svo berjast Úkrar til síðasta manns, eins og viðkvæðið er í Washington. Mogginn segir Le Pen ganga til liðs við öfgahóp Orban á Evrópuþinginu, raunar líka slóvaska, austurríska og þýska hægriöfgaflokka. Þessir friðarsinnar eru stórhættulegir. Dísa reykás segir alla hafa flutt góðar ræður í Washington nema Orban sem vill frið!
ÞJÓÐFYLKING LE PEN LANGSTÆRST
Þjóðfylking Marie Le Pen er langstærsti flokkur Frakklands með 37.1% í síðari umferðinni, 33.2% í fyrri umferð. Hið marxíska New Popular Front með 25.8% og flokkur Macrons 24.7% langt á eftir. Hræðslubandalagið vann samt meirihluta. Prófessor Torfi Túliníus virðist ekki hafa heyrt tíðindin um ofurfylgi Le Pen en áréttar að tekist hefði að bjarga frönsku lýðræði. Le Pen á móti stríðinu í Úkraínu og jaðarsetningu franskrar þjóðar í eigin landi. Þetta er auðvitað bara skandall. Öfgahægri AFD; valkostur fyrir Þýskaland er næst stærsti flokkur Þýskalands með 22% í Evrópukosningunum, kratar Olaf litla Scholz með 14%.
Verkamannaflokkurinn fékk 32.1% bætti við sig 1.7% frá 2019 og 202 þingmönnum; fékk 411. Starmer sem tekur Davos fram yfir London missti 5.6% í eigin kjördæmi. Íhaldsflokkurinn hrundi úr 43.7% í 23.7%, Nigel Farage fékk 14% atkvæða og komst á þing. Sem betur fer finnast ekki friðarsinnar á Íslandi fremur en Norðurlöndum þar sem allt er undir kontról og ekki vandræði að smala fólki í réttir.
GEIMSKIPIÐ NATO
Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 15% og þarf ekki að hafa áhyggjur af því að kallast hægri öfgaflokkur með 37.1% fylgi eins og Le Pen. Bjarni Ben sagði að Joe Biden hefði staðið sig vel á 75 ára afmæli Nato í Washington þar sem fundarsviðið var sem geimskip. Spyrjið af hverju? Ég skýrði frá árásinni á vestræna siðmenningu í janúar 2017. Skilja mátti á Friðjóni sérfræðingi RÚV og Stöð 2 að Biden hefði mælst vel um styrjaldir. Það er nú all nokkuð. Joe Biden útnefndi Pútin sem forseta Úkraínu og gerði Trump að varaforseta! Starmer, Macron og Scholz sögðu besta fólk mismæla sig. Vesturlönd elta heilabilaðan fígúru á stríðstímum. Ekki kemur til greina að elta firrur hægri öfgamanna um frið.