Umfangsmikið sakamálauppgjör í Södertälje – Hovsjö með skotárásum leiddu til þess, að nokkrir voru skotnir. Í fyrstu tilkynnti lögreglan um að fjórir hefðu verið skotnir en síðar reyndist það vera þrír skotnir menn.
Þrír voru skotnir og þrír handteknir vegna skotárásarinnar í Södertälje. Enginn þeirra sem voru skotnir hefur látist en tveir eru enn í meðferð á sjúkrahúsi á meðan sá þriðji hefur fengið að yfirgefa spítalann.
Lögreglan í Stokkhólmi segir við Swebbtv, að hún vilji ekki svara spurningum um hverjir þeir skotnu eða þeir handteknu eru eða hvort þeir tilheyri glæpagengi. Lögreglan rannsakar hins vegar fleiri aðila í tengslum við rannsókn málsins. Ola Österling, blaðafulltrúi hjá lögreglunni í Stokkhólmi segir:
„Við segjum ekki að það sé útilokað, að fleiri verði handteknir í þessari rannsókn allt eftir því hvernig málin skýrast og ástæða skotárásanna verða skýrari.“
Fjórar skotárásir hafa verið í Södertälje það sem af er árs en í fyrra voru samtals 22 skotárásir og því hefur ofbeldið minnkað verulega. Spurður um, hvort búast megi við hefndaraðgerðum vegna árásarinnar, telur Österling erfitt að svara því á þessari stundu.
„Ég get ekki svarað því, það fer eftir því hvað kemur fram við rannsóknina á næstu dögum.“
Myndbandi hefur verið dreift á TikTok og er sagt vera frá skotárásinni. Þar sést hvernig nokkrir safnast saman í íbúðarhverfi þar sem tveir skotsærðir einstaklingar liggja á jörðinni. Samkvæmt sögusögnum er rætt um að samtals hafi fimm manns tekið þátt í skotárásinni.