Mats Ljungqvist saksóknari í Svíþjóð segir í tilkynningu, að rannsókn Svíþjóðar á árásinni á Nord Stream í Eystrasalti í september 2022 sé lokið.
Saksóknari heldur því fram að „málið varði ekki sænska lögsögu og því beri að leggja rannsóknina niður.“ Gögn málsins hafa verið afhent Þýskalandi. Í fréttatilkynningunni segir:
„Megintilgangur frumrannsóknarinnar hefur verið að kanna hvort sænskir ríkisborgarar hafi verið viðriðnir verknaðinn og hvort sænskt landsvæði hafi verið notað til að framkvæma verknaðinn og þar með átt á hættu að skaða sænska hagsmuni eða öryggi Svíþjóðar.“
„Frumrannsóknin hefur verið kerfisbundin og ítarleg. Meðal annars hefur mikill fjöldi skipahreyfinga verið greindur til að átta sig á hvað hefur gerst. Auk þess hefur farið fram umfangsmikil vettvangsrannsókn og nokkrar yfirheyrslur farið fram í málinu. Í ljósi þeirrar stöðu sem við búum við núna getum við fullyrt að málið varðar ekki sænska lögsögu.“
Að sögn ríkissaksóknara er rannsóknin komin á það stig að:
„Yfirvöld hafa góða mynd af atvikinu og ekkert hefur komið fram sem bendir til þess, að Svíar eða sænskir ríkisborgarar hafi átt þátt í árásinni sem gerð var á alþjóðlegu hafsvæði.“
Í fréttatilkynningunni segir enn fremur:
„Saksóknari mun ekki, með vísan til þess trúnaðar sem enn ríkir, tjá sig frekar um málið.“
Strax í febrúar 2023 upplýsti hinn goðsagnakenndi bandaríski rannsóknarblaðamaður Seymour Hersh að Biden-stjórnin í Bandaríkjunum stóð að baki sprengjuárásarinnar á gasleiðslurnar. Vestrænir fjölmiðlar hengdu haus og þögðu um það og þegja enn.