Í nótt héldu forsetaframbjóðendurnir tveir í Bandaríkjunum kappræðu sem stjórnað var af sjónvarpsstöðinni CNN. Augljóst var miðað við afar stranga stjórn á hljóðnemum að þetta var fyrst og fremst „sýning CNN“ heldur en alvöru kappviðræður frambjóðendanna. Það kom fyrir oftar en einu sinni og tvisvar að slökkt var á hljóðnema Trumps, þegar hann talaði. Engir áheyrendur fengu að vera viðstaddir og sögur voru í gangi að netrisarnir hefðu takmarkað reikninga stuðningsmanna Trumps til að skrifa á samfélagsmiðlum fyrir og meðan á umræðunum stóð.
Farið var yfir öll helstu málefni kosninganna, Úkraínustríðið, stríð Ísrael við Hamas, opin landamæri, verðbólguna, atvinnumálin, fóstureyðingar, aldur frambjóðendanna og margt fleira og fengu Biden og Trump 2 mínútur til að tala í hvert sinn. Umræðan tók því það form, að þegar spyrjendur spurðu nýrra spurninga, þá var oftast byrjað á þeirri sem átti að enda vegna þess að tilefni til andsvara hafði ekki verið gefið.
Biden starði með opinn munn út í bláinn
Mikill munur var á framkomu Bidens og Trumps, rödd Bidens var hás og virtist sem hann væri kvefaður. Mörgum sinnum starði hann starandi augnaráði út í loftið með opinn munn eins og elliær sjúklingur sem vissi ekki hvar hann var staddur. Trump var hins vegar skarpur, þótt merkja mætti stundum, hversu honum ofbauð lygar Bidens. Sagði Trump, að hann vildi frekar vera einhvers staðar annars staðar að huga að eigin málum en að vera að eyða tíma í svona „umræður“ en vegna þess að Joe Biden væri að eyðileggja Bandaríkin og kasta heiminum inn í þriðju heimsstyrjöldina, þá kysi hann að taka þátt til að bjarga því sem hægt verður að bjarga. Lofaði hann því, að Úkraínustríðið yrði stöðvað ef hann verður endurkjörinn forseti í nóvember, áður en hann myndi sverja forsetaeiðinn í janúar. Hann benti einnig á, að í forsetatíð sinni, sá hann til þess að Íran var í fjársvelti svo þeir gátu hvorki styrkt Hamas né Hisbollah með fjármagni. Biden hins vegar jós peningum úr frystum sjóðum Írana til Íran áður en hin hryllilega árás Hamas böðlanna var gerð á Ísrael og yfir eitt þúsund gyðingar voru drepnir sem var stærsta mannfall gyðinga síðan í Helförinni.
Var kappræðunum flýtt að áeggjan demókrata sem sjá fram á ósigur Bidens?
Viðbrögðin við þættinum voru óvenjulega harkaleg af sérfræðingateymi CNN strax eftir kappræðurnar. Til dæmis sagði John King fréttastjóri CNN, að fjöldi hátt settra embættismanna Demókrataflokksins ræddu leiðir til að fá Biden til að falla frá framboði til forseta vegna lélegrar frammistöðu hans í umræðunum svo demókratar gætu komið með nýjan frambjóðanda. King sagði einnig að hátt settir demókratar ræddu um að skrifa opinberlega undir yfirlýsingu til Biden um að hætta við framboðið ef hann gerði það ekki sjálfur eftir þessar kappræður.
Þessi harkalegu viðbrögð demókrata í kjölfar umræðnanna svo fljótt og á svo sterkan hátt, benda til þess ásamt þeirri staðreynd að aldrei áður hafa verið haldnar kappræður forsetaframbjóðenda svo snemma sem í júní, að hér búi meira að baki en einungis áhorf og hlustun á sjálfar kappræðurnar. Greinilega er allt á suðupunkti í demókrataflokknum sem sér fram á stórkostlegan ósigur í komandi kosningum. Það kom fram í eftirumræðum CNN, að margir þingmenn og fylkisstjórar ásamt starfsliði demókrata sjá fram á að missa atvinnuna vegna fyrirsjáanlegs taps Bidens og lélegri frammistöðu hans í nótt kennt um. Merkilegt ef allt það fólk sem vitnað var til hafi hringt inn til CNN á þeim 90 mínútum sem kappræðurnar stóðu yfir. Verður fróðlegt að fylgjast með demókrötum næstu mánuði.
Samkvæmt CNN sögðu 67% áhorfenda að Trump væri sigurvegari kvöldsins og einungis 33% sögðu það sama um Biden.