Nýr varnarsamningur Svíþjóðar og Bandaríkjanna undirritaður

Varnarmálaráðherrar Svíþjóðar og Bandaríkjanna skrifa undir sögulegan varnarsamning á milli landanna. Pål Jonson varnarmálaráðherra Svíþjóðar t.v. og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna t.h. (skjáskot SVT).

Samkvæmt sænska sjónvarpinu SVT, þá fá Bandaríkin óhindrað aðgang að 17 sænskum herstöðvum. Það er ljóst eftir að varnarmálaráðherrar landanna undirrituðu varnarsamstarfssamning í Pentagon í vikunni.

Flotastöðin Berga í eyjaklasa Stokkhólms, flugflotastöðin í Luleå og endurreist herstöð á Gotland eru 3 af 17 herstöðum sem bandaríski herinn fær aðgang að samkvæmt nýja varnarsamstarfssamningnum DCA (Defence Cooperation Agreement). Samningurinn veitir Bandaríkjunum m.a. rétt til að senda herlið til stöðvanna, framkvæma heræfingar og millilenda til eldsneytisáfyllingar m.fl. bæði fyrir flug- og sjóher. Pål Jonson varnarmálaráðherra segir í viðtali við SVT:

„Þetta þýðir ekki að allir 17 staðirnir verði notaðir. Við höfum unnið að samningnum í nánum viðræðum út frá því, hvar það er mikilvægast frá hernaðarlegu sjónarhorni, að Bandaríkin geti til dæmis geymt varnarbúnað.“

Varnarmálaráðherrann lofar að ekki verði geymd kjarnorkuvopn í Svíþjóð

Nokkur önnur Norðurlönd hafa sambærilega samninga við Bandaríkin sem veita líkt og Svíþjóð Bandaríkjunum rétt til að geyma vopn og skotfæri á ýmsum bækistöðvum. Íslendingar þekkja málið sem eitt af stofnríkjum Nató og með varnarsamning við Bandaríkin. Bandaríkin hafa eigin yfirráð yfir hergögnum en þurfa að upplýsa Svíþjóð fyrir fram um hvers konar búnaður er fluttur í landið. Varnarmálaráðherra Svíþjóðar fékk spurningu um hvort kjarnorkuvopn verði geymd á sænsku yfirráðasvæði. Hann svaraði:

„Nei, afstaða Svía er vel þekkt. Við sjáum enga þörf eða ástæðu til að hafa kjarnorkuvopn á okkar yfirráðasvæði og Bandaríkin hafa líka sagt að þau virði það.“

Bandaríkin fá aðgang að hernaðarlega mikilvægum stöðum nálægt Eystrasaltslöndunum

Fyrir Bandaríkin snýst samningurinn um að fá aðgang að hernaðarlega mikilvægum stöðum nálægt Eystrasaltslöndunum og á norðurhveli jarðar. Jonson segir:

„Samningurinn skapar betri skilyrði fyrir Bandaríkin til að veita Svíþjóð stuðning ef til kreppu eða stríðs kemur. Það mun einnig vera gott fyrir stöðugleikann í allri Norður-Evrópu, þegar samningurinn tekur gildi.“

Til að samningurinn öðlist gildi þarf sænska þingið að staðfesta hann með þremur fjórðu hluta atkvæða. Auk þess þarf að gera nokkrar lagabreytingar. Pål Jonson vonast til að samningurinn taki gildi á næsta ári.

Sænsku herstöðvarnar sem Bandaríkin fá óhindraðan aðgang að skv. samningnum:

  • Berga
  • Boden
  • Halmstad
  • Härnösand
  • Kiruna
  • Kristinehamn
  • Luleå
  • Ravlunda
  • Revingehed
  • Ronneby
  • Såtenäs
  • Uppsala
  • Vidsel
  • Visby
  • Älvdalen
  • Östersund
Deila
Skoðanakönnun
Við viljum hvetja alla sem áhuga hafa að hjálpa okkur að velja nafn á útvarpið okkar.
1

1. Hér eru nokkrar tillögur sem okkur hafa borist

Hreinsa
Þín tillaga að nafni fyrir stöðina
1

1. Hér hefur þú kost á að gera tillögu að nafni.

Hreinsa