Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna samþykkir kjöt framleitt á rannsóknarstofum

Í viðleitni til að vernda búgrein sína, efnahag og heilsu borgaranna varð Ítalía nýlega fyrsta landið til að banna ræktað kjöt formlega.

Ræktað kjöt, einnig þekkt sem tilraunaræktað kjöt, er búið til í rannsóknarstofu í gegnum fimm þrepa ferli þar sem stofnfrumur eru teknar úr lifandi dýri og fjölgað og ræktaðar áður en þeim er blandað saman við aukefni til að búa til raunsærri áferð. Kjötfrumurnar eru síðan skildar í skilvindu, formaðar og pakkaðar til dreifingar, að sögn ráðgjafafyrirtækisins McKinsey & Company.

Ítalía fyrsta landið sem bannar gervikjöt

Í Facebook-færslu 16. nóvember sagði Francesco Lollobrigida, landbúnaðarráðherra Ítalíu:

„Með lögum sem voru samþykkt í dag til varnar heilsunni, ítalska framleiðslukerfinu, þúsundum starfa, menningu okkar og hefð, þá er Ítalía fyrsta þjóðin í heiminum sem er tryggt gagnvart félagslegri og efnahagslegri áhættu af tilbúnum matvælum.“

Frumvarpið var samþykkt í ítalska öldungadeildinni með 159 atkvæðum gegn 53 og var stutt af landbúnaðarsamtökum landsins, sem unnu að því að vernda 10,1 milljarða dollara kjötvinnsluiðnað Ítala.

Banna merkingu vöru sem kjöts ef afurðin kemur úr jurtaríkinu eða er framleidd á rannsóknarstofum

Tilraunir í Bandaríkjunum til að koma í veg fyrir að kjöt sé ræktað á rannsóknarstofum og til að tryggja, að neytendur viti hvað þeir eru að kaupa, innihalda lög frá 2018 í Missouri, sem banna merkingu matvæla sem „kjöts“ ef þau eru ræktuð úr plöntum eða framleidd á rannsóknarstofum. Í lögunum segir:

„Þessi lög banna einnig ranga merkingu vöru sem kjöts ef hún kemur ekki frá búfé eða alifuglum.“

Þann 13. nóvember lagði Tyler Sirois, þingmaður Flórída-fylkis, fram frumvarp sem miðar að því að banna „framleiðslu, sölu, vörslu eða dreifingu á ræktuðu kjöti“ í ríkinu. Hann sagði í viðtali við Politico:

„Landbúnaður og nautgripir eru ótrúlega mikilvægar atvinnugreinar fyrir Flórída. Ég held því að þetta sé mjög viðeigandi umræða fyrir ríki okkar.“

Tryggja öryggi matarkeðjunnar í heild

Verði frumvarpið „HB 435″ að lögum, gætu veitingahús og verslanir sem brjóta lögin fengið allt að $5.000 sekt og framleiðendur, vinnsluaðilar, pökkunaraðilar eða dreifingaraðilar sem gefa rangar upplýsingar eða merkja matinn á rangan hátt gætu verið sektaðir um allt að $10.000 fyrir hvert brot. Wilton Simpson, yfirmaður landbúnaðar- og neytendaþjónustu Flórída, er fullkomlega samsinntur átaki þingmannsins Tyler Sirois. Simpson segir í yfirlýsingu í The Epoch Times:

„Án þessarar löggjafar gæti óprófað, hugsanlega óöruggt og næstum stjórnlaust kjöt framleitt á rannsóknarstofu verið aðgengilegt í Flórída. Ein af helstu skyldum mínum er að tryggja öryggi allrar matvælakeðjunnar og vernda neytendur Flórída og þessi tillaga gerir einmitt það.“

Enn sem komið er hafa aðeins tvö lönd — Bandaríkin og Singapúr — samþykkt ræktað kjöt til manneldis. Rannsóknir og markaðir spá því, að alþjóðlegur kjötmarkaður fyrir kjöt sem ræktað er á tilraunastofu muni ná næstum 2 milljörðum dollara árið 2035. Af 16 skráðum fyrirtækjum sem rækta kjöt eru fimm með aðsetur í Bandaríkjunum, þrjú í Ísrael, tvö í Hollandi, tvö í Singapúr, og eitt í hverju landi: Kína, Indlandi, Bretlandi og Sviss. Í skilgreiningu Rannsókna og Markaða í janúar segir „að þegar árið 2025 verði hluti kjöts orðinn verulegur sem ræktaður er á tilraunastofum.“

Markaður fyrir ræktað kjöt

„Stór markaðshlutdeild þessara vara má rekja til lífstílsbreytinga með vaxandi eftirspurn eftir snakkvörum og aukinni eftirspurn eftir frystum vörum.“

Í nóvember 2022 tilkynnti Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna, FDA, að hún hefði „lokið fyrstu ráðgjöf sinni fyrir markaðssetningu matvæla úr ræktuðum dýrafrumum.“ Þann 21. júní veitti bandaríska landbúnaðarráðuneytið fyrsta samþykki sitt til að framleiða frumuræktað kjöt til tveggja fyrirtækja í Bandaríkjunum, Good Meat og Upside Food.

Good Meat – ræktað kjötvörumerki matvælatæknifyrirtækisins Eat Just, Inc. – er með framleiðsluaðstöðu í Bandaríkjunum og Singapúr. Samkvæmt fyrirtækinu leyfir landbúnaðarráðuneytið að fyrsta tilraunaræktaða kjúklingaafurðin verði framleidd og seld í Bandaríkjunum. Fjórum mánuðum áður hafði fyrirtækið fengið bréf frá FDA um að það stóðst matvælaöryggisúttekt. Á vefsíðu fyrirtækisins segir:

„Fyrsta varan okkar er ræktaður kjúklingur sem er útbúinn og borinn fram á margs konar vegu og var samþykktur til sölu í Singapúr árið 2020 og Bandaríkjunum árið 2023. Við erum líka að vinna að öðrum kjöttegundum, þar á meðal ræktuðu nautakjöti með frumum úr nautgripum sem ræktaðar hafa verið í Kaliforníu og Wagyu frá Toriyama bænum í Japan.“

Bill Gates hefur fjárfest í Upside Foods frá stofnun

Veitingastaðurinn China Chilcano í Washington bætti rétti með ræktuðum kjúklingi frá Good Meat á matseðilinn í júlí. Helstu fjárfestar í Good Meat eru UBS O’Connor, vogunarsjóður innan UBS Asset Management, og áhættufjármagnsfyrirtækin Graphene Ventures og Singapúr-undirstaða K3 Ventures. Bill Gates hefur verið stór fjárfestir í Upside Foods síðan það var stofnað árið 2017.

Upside Foods sagði, að bandaríska landbúnaðarráðuneytið leyfði fyrirtækinu að framleiða og selja ræktaðan kjúkling. Samkvæmt fyrirtækinu er frumuræktaður kjúklingur þess gerður úr „meira en 99% kjúklingafrumum.“ Fyrirtækið segir að það taki um það bil þrjár vikur að framleiða kjúklingaafurðirnar. Á heimasíðu þess segir:

„Við getum ekki ofmetið þetta: Við erum að búa til kjöt! Ræktað kjöt er glænýr vöruflokkur, svo við skiljum að það er mikil ruglingur þarna úti um hvað það er og hvað það er ekki. Fyrir það fyrsta er ræktað kjöt ekki vegan eða úr jurtaríkinu.“

Framleiðsluleyfi veitt á grundvelli eigin mats fyrirtækisins sjálfs

Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna gaf Upside Foods leyfi til að framleiða vörur sínar í nóvember 2022 og var leyfið byggt á sjálfsmati Upside á ferlum og áhættustýringaraðferðum. Í samþykkt FDA segir:

„Við sáum engan grundvöll fyrir því að álykta að búist væri við, að framleiðsluferlið eins og lýst væri myndi leiða til matvæla sem bera eða innihalda efni eða örverur sem myndu spilla matvælunum.“


Talsmenn tilraunaræktaðs kjöts segja það hollara,
dýravænna og betra fyrir umhverfið.


„Við höfum engar efasemdir á þessari stundu um þá niðurstöðu Upside, að matvæli sem samanstanda af eða innihalda ræktað kjúklingafrumuefni sem notað er í skilgreindu framleiðsluferli … eru eins örugg og sambærileg matvæli sem framleidd eru með öðrum aðferðum.“

Talsmenn gervikjöts

Talsmenn tilraunaræktaðs kjöts segja það hollara fyrir menn, dýravænna og betra fyrir umhverfið. Nicolas Treich, er fræðimaður við Þjóðarstofnun Frakklands fyrir landbúnað, næringu og umhverfi og meðlimur í Toulouse verslunarskólanum við Toulouse Capitole háskólann. Í skýrslu sem Springer Nature gaf út árið 2021, tekur hann fram neikvæða hliðar hefðbundinnar nautgriparæktunar og segir, að til staðar séu „mikilvægar siðferðislegar áhyggjur vegna meðferðar á húsdýrum.“

„Áætlað er að meira en 70 milljarðar landeldisdýra séu alin og slátrað til matar á hverju ári. Dýr sem alin eru til matar er yfirleitt slátrað mjög ungum. Svín eru lokuð vikum saman í litlum kössum, sem koma í veg fyrir grundvallarhreyfingar eins og að ganga og snúa sér við.“

Treich segir að dýravísindin hafi í auknum mæli viðurkennt „tilfinningalega og vitræna hæfileika dýra, þar með talið húsdýra.“

„Í ljósi þess að um 70-80% af sýklalyfjum um allan heim eru notuð fyrir húsdýr, þá er dýrafóðursframleiðslan einnig útungunarstöð fyrir sýklalyfjaónæmi.“

Segir hefðbundna kjötneyslu stuðla „verulega að loftslagsbreytingum“

Þó að raunverulegt dýrakjöt innihaldi „nokkur mikilvæg næringarefni,“ þá heldur Treich því fram að:

„Of mikið af rauðu eða unnu kjöti leiðir til heilsufarsvandamála eins og kransæðasjúkdóma, sykursýki af tegund 2, offitu, kalsíumvanda auk fjölmargra tegunda af krabbameini. Að auki stuðlar hefðbundin kjötframleiðsla verulega að loftslagsbreytingum og krefst mikils magns af vatni og landi sem er stór þáttur í eyðingu skóga, tapi á líffræðilegum fjölbreytileika og veldur farsóttum.“

„[Kjöt ræktað á rannsóknarstofu] býður upp á alvarlegan, kannski alvarlegasta valkostinn til að geta dregið verulega úr skaðlegum áhrifum kjötframleiðslu og neyslu.“

Meiri kolefnislosun við framleiðslu á gervikjöti

Gagnrýnendur kjöts, sem ræktað er á rannsóknarstofu, segja hins vegar að gervikjöt sé verra fyrir umhverfið, hafi neikvæð áhrif á efnahaginn og skapi heilsufarsáhættu fyrir neytandann. Þrátt fyrir að vera talið umhverfisvænna en hefðbundin nautgriparækt, þá bendir rannsókn sem gerð var af vísindamönnum frá háskólanum í Kaliforníu-Davis (UC Davis) og háskólanum í Kaliforníu-Holtville, sem gefin var út 21. apríl, að það sé einmitt hið gagnstæða.

Framleiðsla á kjöti sem byggir á dýrafrumum „virðist vera auðlindafrek þegar hún er skoðuð frá upphafi til lokaframleiðslu með hliðsjón af þeim sviðsmyndum og forsendum sem notaðar eru í greiningum okkar“ segir í rannsókninni. Rannsóknin leiddi í ljós að framleiðsla á kjöti sem ræktað er á rannsóknarstofu gæti losað umtalsvert meira koltvísýring á hvert kíló. Höfundarnir skrifa:

„Líkan okkar stangast almennt á við fyrri rannsóknir og gefur til kynna að umhverfisáhrif ræktaðs kjöts séu líklega meiri en hefðbundin framleiðsla nautakjöts. Það er andstæða þess að vera umhverfisvænni og mikilvæg niðurstaða í ljósi þeirra fjárfestinga sem gerðar hafa verið í nafni þess, að ræktað kjöt sé umhverfisvænna en hefðbundið nautakjöt“

Varast ber að hleypa fram áhættutækni þeirra sem vilja umbreyta öllu matvælakerfinu

Rannsóknin ráðleggur einnig að gæta beri varúðar við að ýta undir nýja fæðutegund sem mun hafa áhrif á heimsvísu. Í skýrslunni segir:

„Landbúnaður og matvælaframleiðsla eru lykilatriði fyrir mat handa vaxandi fjölda jarðarbúa. Þróun tækni sem eykur matvælaframleiðslu er mikilvæg fyrir samfélagslegar framfarir. Þróun þessarar hugsanlega áhættusömu tækni, séð frá bæjardyrum matvælaframleiðslunnar, er nauðsynleg fyrir þá sem leitast við að umbreyta matvælakerfinu okkar.“

Innflutt kjöt merkt sem „vara í Bandaríkjunum“

Tölur frá bandaríska landbúnaðarráðuneytisins í desember 2022 sýna, að 72,9 milljarðar dollara af samtals 195,8 milljarða dollara landbúnaðarvara koma frá nautgripum. Það er minnkun frá 78,2 milljörðum árið 2015. Samkeppni erlendis frá er gríðarlega hörð og sýnir skýrsla Stone Barns Matvæla og landbúnaðarmiðstöðvarinnar 2017, að 75-80% af heildarsölu nautakjöts var innflutningur ódýrs nautakjöts.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós, að flestir bandarískir neytendur eru ekki meðvitaðir um, að þeir eru að kaupa nautakjöt sem er flutt inn frá öðrum löndum, vegna þess að „svo lengi sem innflutta nautakjötið stenst framleiðslukröfur landbúnaðarráðuneytisins, þá er hægt að merkja það sem „vöru“ í Bandaríkjunum.“ Derrick Risner, aðalhöfundur UC Davis rannsóknarinnar segir:

„Ég hef mestar áhyggjur af því, að þetta stækki of fljótt og skaði umhverfið.“

Samkvæmt doktor Paul Saladino er kjöt sem ræktað er á rannsóknarstofu „svindl sem bíður þess að raungerast.“


Doktor Saladino segir, að kjöt framleitt á rannsóknarstofum hafi „lægra næringargildi miðað við kjöt af kúm sem éta gras í náttúrunni.“


Doktor Saladino segir á myndbandinu að neðan:

„Kjöt sem er ræktað á rannsóknarstofu er ekki alvöru kjöt. Það er búið til í frumuræktun á rannsóknarstofu. Það mun næstum örugglega valda heilsufarsvandamálum hjá fólki. – Ofnæmisvandamál, skemmdir á þörmum, alls kyns vandamál geta komið upp vegna kjöts sem ræktað er í líflausum skálum.“

Doktor Saladino segir, að kjöt framleitt á rannsóknarstofum hafi „lægra næringargildi miðað við kjöt af kúm sem éta gras í náttúrunni.“


Deila
Skoðanakönnun
Við viljum hvetja alla sem áhuga hafa að hjálpa okkur að velja nafn á útvarpið okkar.
1

1. Hér eru nokkrar tillögur sem okkur hafa borist

Hreinsa
Þín tillaga að nafni fyrir stöðina
1

1. Hér hefur þú kost á að gera tillögu að nafni.

Hreinsa