Hallur Hallsson skrifar:
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis, orku & loftlagsráðherra gengur rösklega til verka. Einu virðist gilda hvort málefni séu í anda gamla góða Sjálfstæðisflokksins eða helstefnu glópalista. Gulli ætlar að „flýta umtalsvert“ smíði vindmylla vítt og breitt um landið að hætti ESB. Gulli er nú kallaður Gulli græni af því hann gengur ötullega fram i grænum erindagjörðum.
Norskur sérfræðingur að nafni Sveinulf Vågane varar við vindmyllum. Sveinulf segir að í Noregi hafi land sem jafnist á við 84 þúsund fótboltavelli farið undir vindmyllur; ósnortin víðerni, fjöll og skógar. „Við leyfðum vindorkufyrirtækjum að skaða náttúruna, umhverfið og orkukerfin okkar,“ segir Sveinulf. Grænn raforkukostur hafi haft í för með sér hörmungar, skelfileg náttúruspjöll, gróða fjárplógsafla í skattaskjólum með skattleysi á heimaslóð og hærra raforkuverði. Sveinulf segir að almenningsálitið í Noregi hafi snúist gegn vindmyllum. Ég sendi Gulla þessa norsku viðvörun, vonandi hefur hann lesið þó ég sé ekki sérlega bjartsýnn.
HVERSU MARGAR VINDMYLLUR?
Hversu margar vindmyllur ætlar Gulli að reisa í viðkvæmri íslenskri náttúru? Sem nemur þúsund fótboltavöllum, tíu þúsund, tuttugu þúsund eða kannski 84.000 fótboltavöllum eins og Norðmenn? Ísland er 27% af stærð Noregs. Eigum við að segja að 25% fari undir vindmyllur eða sem nemur 21.000 fótboltavöllum, eða kannski „bara“ sex þúsund ef við miðum við höfðatölu. Haldið þið að gróðapungarnir láti þar við sitja? Bjarni & Gulli hafa ekki reist þjóðarleikvang þar sem þjóðin kemur saman, hlýðir á þjóðsönginn, syngjur áfram Ísland og hampar íslenska fánanum. Nei, þjóðin kúldrast í Laugardalnum, finnur til skammar yfir ömurlegri aðstöðu. Bjarni og Gulli virðast reiðubúnir að færa fjárplógsöflum landsvæði sem nema þúsundum fótboltavalla, tug þúsundum undir vindmyllur … Gulli kallar raforkuskömmtun, raforkuöryggi. Raforkuskömmtun sé vegna umframeftirspurnar. Þetta er ekki hægt að skálda …Eru þeir hissa á að fólkið í landinu treysti þeim ekki?
Gulli var á dögunum meðal 84 Íslendinga í Dúbaí að bjarga heiminum. Klukkan er sögð glymja mannkyni um það bil að slá tólf. Ráðherra XD vill skammta orku fremur en láta sverfa til stáls. Orkusnautt land er fátækt land svo draumaland hóphyggjuafla er við sjónarrönd. Kolefni er 0.04% af lofthjúp jarðar. Þau telja sig geta stillt hitastig jarðar með thermostati. Þetta auðvitað er sturlun. Fækka á alþýðufólki, einkabílum og kúm fyrir að gefa frá sér CO². Einkabíl fylgir frelsi svo fólki skal smalað í strætó. Önnur eins hóphyggja hefur aldrei birst mannkyni. Davíð Oddsson segir í leiðara Morgunblaðsins að allt eins megi segja um skortstefnu þessa, að ef ískápurinn sé tómur, séu bansett börnin óseðjandi … Pælið í þessum hárbeittu ummælum Davíðs. Hvað gerist ef börnin komast ekki í ísskápinn? Spyrjið. Af hverju?
SKORTASTEFNA GULLA OG BJARNA
Gulli Þór og Bjarni Ben ráða meðan þeir fylgja skortstefnu Kötu litlu. Þetta er ekki flókið. Loftlagsváin snýst um að taka kolefni CO² frá plöntum til að minnka súrefni í mannheimum. Segja má að þetta sé helför gegn grænum gróðri sem framleiðir súrefni, sjálfa lífsbjörg okkar. Þessi helför er teiknuð upp af wefurunum í Davos og framkvæmd af búrókrötum í New York. Kolefnisskattar eru aflátsbréf okkar tíðar, lögð á almenning til þess að gleðja hina ríku og voldugu. Gulli brá sér bæjarleið í hlýjuna, þá lagði atvinnunefnd Alþingis fram frumvarp Gulla um skömmtun orku. Skælbrosandi kallar Gulli það raforkuöryggi. Kristinn Karl Brynjarsson formaður verkalýðsráðs XD telur frumvarpið öfugþróun og segir að ef það kosti stjórnarslit að leysa raforkuvandann, þá sé það gjaldið sem greiða verði. Skömmtunarstjóri ríkisins, orkustjóri okkar Halla Hrund verður skömmtunarstjóri ríkisins. Hún mun forgangsraða þegar til raforkuskerðinga kemur. Þetta er ekki hægt að skálda. Útvaldir munu fá orku. Halla Hrund og Kata litla prýða vefsíður wefaranna í Davos. Allt undir stjórn hinna ofsaríku í Davos og leiðtogann ógeðfellda Klaus Schwab sem montar sig af því að hafa flugumenn víða um heim.
Hallur Hallsson, blaðamaður