Sara Wahlström Gilljam er hamingjusöm með íslensku hestana sína. Jólin hefjast alltaf með reiðtúr á aðfangadag á hestunum góðu (skjáskot SVT).
Í 15. sinn komu jólasveinar á Íslandshestum með jólin á aðfangadag í Åkerby. Um 20 jólasveinaknapar lögðu af stað í yndislegu en köldu jólaveðri inn í snævi þakinn skóginn fyrir utan Skultuna. Þetta er orðin árleg hefð, að jólin hefjist á útreiðartúr á Íslandshestunum á aðfangadag. Jólasveinarnir voru með jólasveinahúfur og Íslandshestarnir voru einnig prýddir tilheyrandi höfuðbúnaði, sumir með lítil falleg hreindýrshorn. Hluti tilhlökkunarefnisins er einmitt að undirbúa reiðtúr aðfangadags eins og sjá má á myndskeiði sænska sjónvarpsins.
Svea Wahlström Gilljam var ein þeirra sem hafði lengi beðið eftir og hlakkað til dagsins. Fyrir hana er útreiðartúrinn á íslensku hestunum sem markar upphaf jólanna – hátindur ársins. Hún segir í viðtali við SVT:
„Hestar eru svo stór hluti af lífi mínu. Það er mér svo mikilvægt að sjá til þess, að þeir fái líka að taka þátt í jólunum, borða vel og fá að njóta sín. Þetta er hápunktur ársins. Ég held að hestunum finnist það sama.“