Sænskir jafnaðarmenn: Það verður að blanda fólki saman með pólitískum aðgerðum

Magdalena Andersson formaður sósíaldemókrataflokksins í Svíþjóð í ræðustól í Almedalen. (Mynd © News Öresund, CC 2.0).

Í nýrri skýrslu jafnaðarmanna í Svíþjóð „Vöxtur hliðstæðra samfélaga“ viðurkennir stærsti flokkur landsins, að fjöldainnflytjendastefnan hafi leitt til margvíslegra vandamála: M.a. að fólk með innflytjendabakgrunn standi sig verr í skóla og að óvirk samhliða samfélög hafi skapast, þar sem sænsk lög gilda ekki lengur.

Flokkur sósíaldemókrata telur lausnina vera þá, að „blanda eigi íbúum saman með átaki á mælikvarða sem við höfum ekki séð áður.“

Hliðarsamfélög ógna samfélaginu

Segir í skýrslunni (sjá pdf að neðan):

„Svíþjóð glímir við margvísleg samfélagsleg vandamál sem ógna samkennd samfélagsins og veikja hið sameiginlega tungumál. Allt eru þetta alvarleg vandamál í sjálfu sér. En þegar mörg þeirra safnast saman á einu og sama svæðinu þá verður útkoman sérstök. Þá myndast tilvistarógn við samheldnina í samfélaginu og hliðarsamfélög myndast.“

Blöndun fólks á mælikvarða sem við höfum ekki séð áður

Bent er á, að margt ungt fólk með innflytjendabakgrunn líti hvorki á sig sem Svía né að þau séu hluti af sænsku samfélagi. Halda þau uppi siðum eins og „fræðsluferðum til Afríku, nauðungarhjónaböndum, heiðursmenningu og limlestingu kynfæra.“ Jafnaðarmannaflokkurinn telur að „öflugt pólitískt átak“ þurfi til að vinna bug á aðskilnaði og draga úr mótsetningum. Þessi stefna gengur út á það, að Svíum og innflytjendum verði „blandað saman.“ Í skýrslunni segir:

„Það þarf að rjúfa efnahagslegan, þjóðernislegan og tungumálalegan aðskilnað á skipulagðan hátt, sem krefst þess að íbúar blandast saman. Samfélagið verður að framkvæma átak sem við höfum ekki gert áður og á mælikvarða sem við höfum ekki séð áður.“

Úr einsleitni yfir í mesta fjölmenningarríki hins vestræna heims

Í skýrslunni kemur einnig fram að:

„Svíþjóð hefur farið úr því að vera eitt einsleitasta ríki hins vestræna heims í að vera fjölmenningarríkasta og fjölbreytilegasta land hins vestræna heims.“ Enn fremur: „Mjög stór hluti innflytjenda hefur enga menntun til að tala um.“

Jafnframt er viðurkennt, að „í sumum leikskólum er sænskan horfin að hluta“ og að „í dag eru til leikskólar og skólar með fá eða engin sænskumælandi börn. Oft hefur starfsfólkið ekki sænsku sem móðurmál.“ Jafnaðarmenn viðurkenna:

„Til eru leikskólar þar sem meira en helmingur leikskólabarna sem byrja í skólanum og eru fædd innanlands hafa jafnmikla sænskukunnáttu og nýkomin aðflutt börn.“

Svíalausir skólar

Í upphafi haustmisseris voru 14 skólar í Svíþjóð þar sem hlutfall nemenda með erlendan bakgrunn var 100% – ​​og 130 aðrir skólar sem voru með á milli 80 og 89,9% innflytjenda. Alls eru núna um 550 skólar þar sem nemendur innflytjenda eru í meirihluta, þar sem árangur er oft ömurlegur og ástandinu er lýst sem ósjálfbæru.

Deila
Skoðanakönnun
Við viljum hvetja alla sem áhuga hafa að hjálpa okkur að velja nafn á útvarpið okkar.
1

1. Hér eru nokkrar tillögur sem okkur hafa borist

Hreinsa
Þín tillaga að nafni fyrir stöðina
1

1. Hér hefur þú kost á að gera tillögu að nafni.

Hreinsa