Michael Bydén yfirhershöfðingi Svíþjóðar beinir þeim tilmælum til allra Svía að undirbúa sig fyrir stríð. „Hver og einn verður að spyrja sjálfan sig einföldustu grundvallarspurningarinnar: Ef það sem gerist í Úkraínu í dag gerist í Svíþjóð á morgun, er ég þá undirbúinn?“ Sænska sjónvarpið SVT greinir frá.
Michael Bydén leggur áherslu á, að Svíar séu í erfiðasta öryggisástandi frá seinni heimsstyrjöldinni og að Rússland sé ógnvaldurinn:
„Þeir halda áfram að stunda umfangsmikið stríð og halda áfram að fjárfesta. Þá er heldur ekki hægt að útiloka, að þeir fari líka inn á aðrar brautir. Það þýðir að við verðum að undirbúa okkur eins og hægt er, á öllum stigum, í öllu samfélaginu.“
Erum óundirbúin
Ábyrgðin á því að vera viðbúin hvílir á öllum, bæði valdhöfum og einkaaðilum, að mati Michael Bydén. Hann telur að við séum ekki nægilega undirbúin í dag.
„Ef ég verð ekki að berjast mun ég líklegast fara í vinnuna mína. Við verðum að tryggja að við búum við öflugt samfélag þar sem samfélagslega mikilvægir þættir eins og barnagæsla, öldrunarþjónusta, heilsugæsla og skólar eru í gangi eins og kostur er. Ef við höfum þá afstöðu og sjáum til þess að samfélagið virki eins eðlilega og hægt er við mjög óeðlilegar aðstæður, þá getum við staðið á móti. Við erum ekki komin þangað.“
SVT: Á maður að skilja þetta svo, að það geti orðið stríð í Svíþjóð?
Yfirhershöfðinginn: Svarið er já.