Bændur á Skáni í suðurhluta Svíþjóðar hafa tekið upp baráttuna gegn yfirríkishyggju og reglugerðarfargani. Í gær óku dráttarvélar í gegnum Kristianstad í mótmælaskyni og mátti sjá borða með skilaboðum eins og „Án bænda – enginn matur!“ Einnig mótmæltu bændur í Växjö.
Sænska sjónvarpið greinir frá. Í Växjö mótmæltu bændur nýjum lögum ESB um náttúruvernd sem nýlega voru samþykkt. Samkvæmt nýju lögunum á að „endurheimta 30% náttúrulegs umhverfis fram til ársins 2030.“ Patrik Fernlund segir við SVT:
„Það er verið að valta yfir okkur. Þeir samþykkja ný lög niðri í Brussel, í framkvæmdastjórn ESB og þeir tala ekki einu sinni við okkur bændur og hagsmunasamtök okkar.“
Bændur eru á hnjánum
Samkvæmt Frihetsnytt mótmæla bændur háum sköttum í landbúnaði. Bóndinn Oscar Lindkvist sagði, að mikilvægasta málið núna sé að draga úr innflutningi á vörum til að gefa sænskum bændum tækifæri. Lindkvist, sem var einn þeirra sem skipulögðu dráttarvélamótmælin, sagði að bændur í Svíþjóð séu „á hnjánum.“ Hann vonast til stjórnvöld taki málið fyrir.
Uppreisn bænda gegn ESB
Mótmæli sænsku bændanna kemur í framhaldi uppreisnar bænda í öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Hafa bændur meðal annars flykkst til Brussel og dreift ókeypis kúamykju við hlið búrókratanna þar. Hafa ýmsir kerfiskrabbarnir flúið lengra inn í kastalann og einhverjir veifað hvítum smáplatfánum og þykjast ætla að gefa aðeins eftir fyrir kröfum bænda. En bændur eru jarðbundnar verur sem dæma menn af verkum sínum.
Í Svíþjóð sagði Helena Olofsson ein þeirra sem skipulögðu mótmæli bændanna núna:
„Við krefjumst burðugri stoða landbúnaðarins svo hægt sé að lifa af starfinu. Færri reglur og minni skriffinnsku.“