Skoðanakannanir benda til þess í fyrsta sinn í Frakklandi, að Marine Le Pen fyrrum formaður Þjóðfylkingarinnar, yrði sigurvegari í forsetakosningunum í Frakklandi. Samkvæmt skoðanakönnun IFOP myndi Marine Le Pen – ef forsetakosningar yrðu í dag – sigra í annarri umferð gegn núverandi forsætisráðherra Gabriel Attal með 51% á móti 49%.
Þetta er í fyrsta sinn sem könnun sýnir í Frakklandi, að Marine Le Pen myndi sigra í forsetakosningum. Samkvæmt sömu könnun myndi hún fá 50% atkvæða ef hún stæði frammi fyrir Édouard Philippe fyrrverandi forsætisráðherra.
Í annarri umferð kosninga gegn vinstri öfgamanninum Jean-Luc Mélenchon myndi Le Pen sigra með 64%. Næstu forsetakosningar í Frakklandi verða ekki haldnar fyrr en árið 2027. Forsetinn er kjörinn til fimm ára í senn.
Í síðustu forsetakosningum árið 2022 fékk Marine Le Pen 41.5% atkvæða en sigurvegarinn, Emmanuel Macron, fékk 58,5%. Faðir hennar, Jean-Marie Le Pen, fékk 17,8% í annarri umferð kosninganna 2002.